Fótbolti

Jón Þór með besta sigurhlutfall og hlutfallsárangur landsliðsþjálfara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísland hefur unnið tæplega tvo þriðju leikja sinna undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar.
Ísland hefur unnið tæplega tvo þriðju leikja sinna undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar. vísir/vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur unnið sextíu prósent leikja sinna síðan Jón Þór Hauksson tók við því haustið 2018. Hann er bæði með besta sigurhlutfall og hlutfallsárangur þjálfara kvennalandsliðsins.

Ísland tryggði sér sæti á EM 2022 með 0-1 sigri á Ungverjalandi í fyrradag. Þetta er fjórða Evrópumótið í röð sem íslenska kvennalandsliðið kemst á.

Leikurinn í Ungverjalandi var tuttugasti leikur Íslands undir stjórn Jóns Þórs. Íslendingar hafa unnið tólf af þessum leikjum, gert fjögur jafntefli og tapað fjórum leikjum. Það gerir sextíu prósent sigurhlutfall og 66,7 prósent hlutfallsárangur (stig fengin deilt í stig í boði).

Freyr Alexandersson, forveri Jóns Þórs í starfi, var með 46,7 prósent sigurhlutfall sem þjálfari kvennalandsliðsins og með 53,8 prósent hlutfallsárangur. Freyr stýrði kvennalandsliðinu á árunum 2013-18, í alls sextíu leikjum, og kom Íslandi á EM 2017.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur verið lengst allra þjálfari kvennalandsliðsins en hann stýrði því í 77 leikjum á árunum 2006-13. Hann var með 50,6 prósent sigurhlutfall í starfi og 54,1 prósent hlutfallsárangur. Sigurður Ragnar var fyrstur til að koma Íslandi á stórmót (EM 2009) og kom íslenska liðinu svo aftur á EM fjórum árum síðar.

Jörundur Áki Sveinsson stýrði Íslandi samtals í 22 leikjum en aðeins fimm þeirra unnust. Logi Ólafsson stýrði kvennalandsliðinu samtals í fimmtán leikjum og sjö þeirra unnust sem gerir 46,7 prósent sigurhlutfall.

Sigurhlutfall þjálfara kvennalandsliðsins (lágmark tíu leikir)

  • Jón Þór Hauksson - 60,0%
  • Sigurður Ragnar Eyjólfsson - 50,6%
  • Freyr Alexandersson - 46,7%
  • Logi Ólafsson - 46,7%
  • Helena Ólafsdóttir - 35,7%
  • Jörundur Áki Sveinsson - 22,7%
  • Kristinn Björnsson - 18,8%
  • Vanda Sigurgeirsdóttir - 8,3%

Hlutfallsárangur þjálfara kvennalandsliðsins (lágmark tíu leikir)

  • Jón Þór Hauksson - 66,7%
  • Sigurður Ragnar Eyjólfsson - 54,1%
  • Freyr Alexandersson - 53,8%
  • Logi Ólafsson - 51,1%
  • Helena Ólafsdóttir - 38,1%
  • Jörundur Áki Sveinsson - 30,3%
  • Kristinn Björnsson - 22,9%
  • Vanda Sigurgeirsdóttir - 16,7%

Tengdar fréttir

Elín Metta markahæst í riðlinum

Elín Metta Jensen, framherji íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var markahæst í F-riðli undankeppni EM 2022 með sex mörk.

Ísland á EM

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er komið á fjórða stórmótið. Þetta varð ljóst eftir sigur Íslands á Ungverjalandi í dag og önnur úrslit féllu svo með Íslandi síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×