Íþróttavefur RÚV birti viðtal við Hörð Axel eftir 24 stiga sigur Íslands á Kósovó fyrr í dag, lokatölur 86-62 Íslandi í vil.
„Við sem erum að spila heima ekki búnir að spila körfubolta í tvo mánuði þannig við vorum aðeins ryðgaðir í fyrri hálfleik á móti Lúxemborg, eftir það erum við búnir að vera þrusuflottir finnst mér,” sagði fyrirliðinn eftir leik.
„Ég er fullur tilhlökkunar að fá að spila körfu. Þetta er það sem margir af okkur hafa lifað fyrir síðan við vorum litlir guttar. Nú er búið að taka það svolítið af okkur. Við erum bara ánægðir að fara á völlinn og spila og vonandi fáum við að gera það sem fyrst,” segir Hörður Axel einnig.
Íslensk félög hafa hvorki fengið að æfa né spila síðan í byrjun októbermánaðar. Hörður Axel vonast til að liðin fái leyfi til að hefja æfingar að nýju sem fyrst.
„Viljum auðvitað fá að spila, ef það er ekki hægt viljum við að minnsta kosti fá að æfa. Það er hægt að æfa körfubolta á svo marga vegu án þess að brjóta sóttvarnarlög. Við getum hugsað um okkur sjálfir, af því við viljum svo mikið æfa, við þurfum að æfa. Þetta er svo stór hluti af okkar lífi. Það er búið að taka rosalega mikið af okkur ef við fáum ekki einu sinni að snerta boltann,” segir Hörðu Axel að endingu í viðtalinu eftir stórsigur Íslands.
Sjá má viðtalið við Hörð Axel í heild sinni inn á íþróttavef RÚV.