Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, braut bein í hendinni í leik Íslands og Slóvakíu í undankeppni EM í gær. Ísland vann 1-3 sigur eftir að hafa verið undir í hálfleik.
Gera þurfti hlé á leiknum í upphafi seinni hálfleiks þegar rafmagnið fór af vellinum. Liðin fóru því aftur inn til búningsherbergja og þar brotnaði Jón Þór.
„Eftir stoppið í rafmagnsleysinu vorum við að stappa stálinu í hvert annað og ég lem í nuddbekk með krepptum hnefa. Ég hitti þar utan á hnefann og braut beinið sem er efst uppi í litla puttanum. Það er smávægilegt og ég verð klár á þriðjudaginn,“ sagði Jón Þór við Fótbolta.net í gær. Hann var þá búinn að fá niðurstöðu úr myndatöku og á leiðinni í gips.
Jón Þór segir að hann hafi ekki verið reiður þegar hann lamdi nuddbekkinn með þeim afleiðingum að beinið brotnaði.
„Nei, þetta var ekki í reiðiskasti heldur var þetta eldmóður. Við vorum að byrja seinni hálfleikinn vel og ég var meira að leggja áherslu á að við héldum þeim krafti og orku sem við settum í byrjunina á seinni hálfleik og héldum því áfram,“ sagði Jón Þór og bætti við að hann ætlaði ekki að gera þetta að vana.
„Ég sagði við stelpurnar eftir leikinn að ég ætlaði ekki að fara að brjóta bein í hvert skipti sem þyrfti að koma til baka en ef það var þetta sem þurfti þá var ég hæstánægður með það og fórna mér glaður í það. Nei nei, þetta er bara óheppilegt og kemur ekki fyrir aftur.“
Ísland mætir Ungverjalandi á þriðjudaginn í lokaleik sínum í undankeppninni. Sigur fleytir íslenska liðinu væntanlega beint inn á EM en í versta falli fer það í umspil.