Blómaskeið körfuboltans á Vestfjörðum var í kringum aldamótin þegar KFÍ tefldi fram sterku liði sem komst m.a. í bikarúrslit 1998.
Í Domino's Körfuboltakvöldi á föstudaginn var sýnt skemmtilegt innslag sem Þorsteinn Gunnarsson gerði um KFÍ í upphafi tímabilsins 2004-05.
KFÍ tók þá á móti nýliðum Fjölnis sem var þá undir stjórn Benedikts Guðmundssonar, eins af sérfræðingum Domino's Körfuboltakvölds og þjálfara íslenska kvennalandsliðsins, í 2. umferð Intersport-deildarinnar. KFÍ bauð öllum Ísfirðingum á leikinn.
Í liði KFÍ í þessum leik var m.a. miðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson, þá aðeins sextán ára. Hann skoraði sex stig og tók níu fráköst. Stigahæstur í liði KFÍ var Joshua Helm með 35 stig. Hann tók einnig sautján fráköst.
Darrel Flake skoraði 28 stig og tók átján fráköst fyrir Fjölni sem vann leikinn, 83-104. Jeb Ivey skoraði 24 stig og Nemanja Sovic 21. Allir þessir leikmenn léku lengi á Íslandi.
KFÍ vann aðeins tvo af 22 deildarleikjum sínum þetta tímabil og féll í 1. deild. KFÍ leikur núna undir merkjum Vestra.
Innslagið og umræður þeirra Kjartans Atla Kjartanssonar, Hermanns Haukssonar og Teits Örlygsson um KFÍ má sjá hér fyrir neðan.