Sara Sigmundsdóttir er nýr sendiherra hjá Volkswagen síðan í vor og á dögunum var tekin upp ný auglýsing hér á landi með íslensku CrossFit stjörnunni.
Sara auglýsir nýja Volkswagen R bílinn og heimaslóðir hennar fá heldur betur að njóta sín í auglýsingunni.
Sara sýndi brot úr auglýsingunni og sagði frá gerð hennar á Instagram síðu sinni.
„Auglýsingin var tekin upp á Reykjanesi í byrjun október þar sem ég bý. Ísland er einstaklega fallegt á haustin,“ sagði Sara Sigmundsdóttir og þetta er góð auglýsing fyrir íslenska náttúru.
„Allir tökustaðirnir í myndbandinu eru í mesta lagi í þrjátíu mínútna fjarlægð frá heimili mínu. Ég er þakklát fyrir það að geta sýnt aðeins frá umhverfinu þar sem ég ólst í gegnum vörumerkin sem ég auglýsi,“ sagði Sara sem segist vera stoltur sendiherra fyrir Volkswagen R.
Í auglýsingunni segir Sara frá því að markmið hennar sé að verða besta CrossFit kona heims. Hún segist einnig njóta þess að fara í bíltúr út í íslensku náttúruna til að slaga á og endurhlaða hugann.
„Ein af uppáhaldsstundunum mínum í vikunni er hvíldardagurinn minn þegar ég og hundurinn minn keyrum oft eitthvað út í náttúruna og njótum víðáttunnar. Við leggjum svo bílnum og förum jafnvel saman í göngutúr,“ segir Sara og það má sjá hana og Mola á ferðinni á Reykjanesinu.
Hér fyrir neðan má sjá færslu Söru með svipmyndum úr þessari flottu auglýsingu.