Innlent

Segir stöðuna hjá Land­helgis­gæslunni graf­alvar­lega

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar

Svo gæti farið að engin björgunarþyrla verði starfhæf hjá Landhelgisgæslunni um miðja næstu viku ef ekki næst að semja í kjaradeilu hluta flugvirkja Gæslunnar. Þar með yrði hvorki hægt að sinna sjúkraflugi á sjó og landi né því eftirliti sem þyrlur Landhelgisgæslunnar sinna.

Landhelgisgæslan hefur á að skipa þrjár þyrlur en aðeins ein þyrla hefur verið í notkun frá því að verkfall flugvirkja Gæslunnar skall á. Önnur þyrla Gæslunnar var farin í viðhald þegar verkfallið hófst og er hún því ekki tiltæk.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir stöðuna grafalvarlega. Leysa þurfi kjaradeilur flugvirkja Gæslunnar svo að hægt verði að sinna áfram sjúkraflugi.Vísir/Sigurjón

„Staðan er grafalvarleg og hefur sjálfsagt aldrei verið jafn alvarleg í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Þetta hefur þær afleiðingar að það er enginn tiltækur til að fara út á sjó né inn á land í bráðatilfellum. Við stöndum hér alein í miðju Atlantshafinu í skammdegi og með Covid yfir okkur og getum í raun enga björg okkur veitt,“ sagði Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Ótímabundið verkfall flugvirkja hófst 6. nóvember síðastliðinn en samningar hafa verið lausir frá 31. desember 2019. Verkfallið nær til allra flugvirkja sem starfa hjá Landhelgisgæslunni sem sinna ekki neyðarþjónustu.

Hann segir mikilvægt að kjaradeilurnar verði leystar sem fyrst.

„Það er algerlega óviðunandi að hafa ekki lágmarksbjörgunarþjónustu hér í þessu landi og það er eiginlega alveg sama með hvaða leiðum það er gert, okkar skylda er að viðhalda lágmarksbjörgunarþjónustu í það minnsta og við höfum gert allt sem við getum til þess, munum halda áfram eins og kostur er en þessir aðilar verða að ljúka þessu máli,“ sagði Georg.

Þegar Georg var spurður hvort hann teldi nauðsynlegt að stoppa verkfallið með lögum ef ekki næðust samningar áður en síðasta starfhæfa þyrlan færi í reglubundna skoðun um miðja næstu viku sagði hann „það er ekki mitt að svara því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×