Fótbolti

Markvörður Ungverja hugsaði um mistökin í 80 mínútur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Péter Gulácsi missir aukaspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar inn.
Péter Gulácsi missir aukaspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar inn. getty/Laszlo Szirtesi

Markvörðurinn Péter Gulácsi var manna fegnastur þegar Ungverjaland tryggði sér sæti á EM með 2-1 sigri á Íslandi í Búdapest í gær.

Gulácsi gerði sig sekan um slæm mistök þegar Gylfi Þór Sigurðsson kom Íslendingum yfir á 11. mínútu. Hann missti þá boltann klaufalega inn fyrir marklínuna eftir aukaspyrnu Gylfa.

Allt stefndi í sigur íslenska liðsins en á 88. mínútu jafnaði Loïc Négo fyrir heimamenn. Dominik Szoboszlai skoraði svo sigurmark Ungverja í uppbótartíma. Mistök Gulácsi skiptu því, þegar uppi var staðið, ekki máli.

„Það er erfitt að lýsa þessu. ég hugsaði um mistökin í 80 mínútur. Ég hef aldrei fengið á mig svona mark,“ sagði Gulácsi eftir leikinn. „Svona lagað getur komið fyrir markverði en má það ekki á stundum sem þessari. Þetta var erfitt fyrir mig þar til við jöfnuðum og endirinn var svo stórkostlegur.“

Ungverjar verða í F-riðli á EM með heimsmeisturum Frakka, Evrópumeisturum Portúgala og Þjóðverjum. Þeir fá tvo leiki á heimavelli, Puskás leikvanginum sem leikurinn gegn Íslendingum fór fram á.

„Við erum lið og berjumst fyrir hvern annan. Þetta var ekki auðvelt eftir að við lentum undir en ég tel að við höfum átt sigurinn skilið. Við stjórnuðum leiknum og sköpuðum fleiri færi. Við komum til baka gegn liði sem er ofarlega á heimslistanum en við og með því að spila góðan fótbolta. Við verðskuldum sætið á EM,“ sagði Gulácsi.

Hann var í ungverska hópnum á EM 2016 en kom ekkert við sögu á mótinu. Gábor Király stóð milli stanganna í öllum leikjum Ungverja, m.a. í 1-1 jafnteflinu við Íslendinga í Marseille.


Tengdar fréttir

Telja afar ólíklegt að Hamrén haldi áfram

Litlar líkur eru á að Erik Hamrén haldi áfram sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta að mati Bjarna Guðjónssonar og Atla Viðars Björnssonar.

„Töpuðum út af því að við erum ekki í nógu góðu formi“

„Við töpum út af því að við erum ekki í nógu góðu formi. Þetta er eitthvað sem á ekki að eiga sér stað á hæsta stigi í fótbolta,“ segir Bjarni Guðjónsson, fyrrverandi landsliðsmaður, um tap Íslands gegn Ungverjalandi í gær.

Hetjan gegn Íslandi varð Ungverji í fyrra

Loic Nego kom Ungverjalandi til bjargar í gærkvöld með jöfnunarmarki undir lokin gegn Íslandi. Ef leikurinn hefði farið fram í mars, líkt og til stóð, hefði Nego ekki mátt spila.

Hannes: Aldrei verið jafn sorg­mæddur eftir tap

„Ég held að ég hafi aldrei verið jafn sorgmæddur eftir tap á fótboltaleik,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, eftir tapið grátlega í Ungverjalandi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×