Grétar Snær Gunnarsson er genginn í raðir KR frá Fjölni.
Grétar, sem er 23 ára, lék sautján leiki fyrir Fjölni í Pepsi Max-deildinni í sumar og skoraði eitt mark. Hann lék bæði í vörn og á miðju Grafarvogsliðsins sem endaði í tólfta og neðsta sæti Pepsi Max-deildarinnar og leikur í Lengjudeildinni á næsta ári.
KR endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar og náði þar af leiðandi ekki Evrópusæti. KR-ingar voru ekki sáttir með KSÍ skyldi hafa hætt keppni á Íslandsmótinu vegna kórónuveirufaraldursins og hafa kært ákvörðunina til áfrýjunardómstóls sambandsins.
Grétar er uppalinn hjá FH en hefur einnig leikið með HK og Víkingi Ó. hér á landi ásamt Fjölni. Tímabilið 2018 lék hann með HB í Færeyjum og varð meistari með liðinu.
Grétar hefur leikið átján leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af fimm með U-21 árs landsliðinu.
Þetta er annað skiptið í röð sem KR fær leikmann frá Fjölni eftir að Grafarvogsliðið fellur. Eftir tímabilið 2018 fengu KR-ingar Ægi Jarl Jónasson frá Fjölnismönnum. Hann hefur alls leikið 39 deildar- og bikarleiki með KR og skorað tíu mörk. Ægir varð Íslandsmeistari með KR í fyrra.