Íslendingalið Vålerenga hafði betur gegn Íslendingaliði Strømsgodset í síðasta leik dagsins í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld, lokatölur 2-0.
Viðar Örn Kjartansson var að venju í fremstu víglínu hjá Vålerenga er liðið heimsótti Strømsgodset í kvöld. Var Valdimar Þór Ingimundarsson í byrjunarliði Strømsgodset.
Gestirnir voru mun betri í kvöld og komust yfir eftir aðeins fimmtán mínútna leik. Annað mark leiksins kom svo þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka þá var sigurinn endanlega tryggður er Christian Dahle Borchgrevink kom knettinum í netið. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins.
Matthías Vilhjálmsson leysti Viðar Örn af hólmi eftir að Vålerenga komst 2-0 yfir. Ari Leifsson sat hins vegar allan tímann á varamannabekk Strømsgodset í kvöld.
Eftir sigur kvöldsins er Vålerenga með 42 stig í 4. sæti deildarinnar eftir 23 umferðir, fjórum stigum á eftir Molde sem situr í 2. sæti deildarinnar. Strømsgodset er á sama tíma í 13. sæti með 24 stig.