Fótbolti

Sara Björk og Berg­lind Björg á skotskónum í Frakk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði eitt fimm marka Lyon í kvöld.
Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði eitt fimm marka Lyon í kvöld. VÍSIR/GETTY

Landsliðskonurnar Sara Björk Gunnarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir voru á skotskónum í frönsku úrvalsdeildinni í dag. Úrslit liða þeirra voru þó ekki þau sömu.

Frakklands- og Evrópumeistarar Lyon unnu stórsigur á Montpellier á útivelli þar sem Sara Björk skoraði fjórða mark liðsins. Berglind Björg skoraði hins vegar eina mark Le Havré í 2-1 tapi gegn Guingamp á útivelli.

Lyon eru óstöðvandi þessa stundina og enn með fullt hús stiga þegar sjö umferðum er lokið. Eftir 5-0 sigur kvöldsins hefur liðið skorað 23 mörk og aðeins fengið á sig eitt.

Sigur kvöldsins var í þægilegri kantinum en Dzsenifer Marozsán meisturunum yfir á 4. mínútu leiksins. Þremur mínútum síðar hafði Amanda Henry tvöfaldað forystuna og þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar var staðan orðin 3-0 þökk sé marki markadrottningarinnar Eugénie Le Sommer.

Staðan orðin 3-0 og þannig var hún allt fram á 72. mínútu þegar Sara Björk þandi netmöskvana. 

Í uppbótartíma leiksins bætti Kadeisha Buchanan svo við fimmta marki liðsins og lokatölur því 5-0 meisturunum í vil. Sara lék allan leikinn á miðri miðju Lyon.

Berglind Björg, Anna Björk Kristjánsdóttir og stöllur í Le Havré máttu þola svekkjandi tap í dag. Faustine Robert kom Guingamp yfir strax á 2. mínútu en Berglind jafnaði metin aðeins tveimur mínútum síðar.

Staðan orðin 1-1 og stefndi í að það yrði lokatölur en Sarah Cambot tryggði Guingamp 2-1 sigur með marki þegar níu mínútur voru til leiksloka. Tap dagsins þýðir að Le Havré er nú á botni deildarinnar með aðeins fjögur stig þegar sjö umferðum er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×