Sport

Sara óskaði Tiu til hamingju með yfirburðasigur: Við hinar eigum mikið verk framundan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir er á fullu í námi með æfingunum en Tia-Clair Toomey er til hægri að fagna heimsmeistaratitli sínum.
Sara Sigmundsdóttir er á fullu í námi með æfingunum en Tia-Clair Toomey er til hægri að fagna heimsmeistaratitli sínum. Instagram/@sarasigmunds og @crossfitgames

Íslenska CrossFit stjarnan Sara Sigmundsdóttir missti af tækifærinu á að keppa um heimsmeistaratitilinn við Tiu-Clair Toomey en íslenska CrossFit stjarnan fylgdist samt með heimsleikunum um helgina.

Tia-Clair Toomey var í algjörum sérflokki á nýloknum heimsleikum í CrossFit og vann þar fjórða heimsmeistaratitilinn sinn í röð.

Sara Sigmundsdóttir var búin að eiga frábært tímabil áður en hún klaufskaðist við að meiða sig stuttu fyrir keppni í sumar. Hún náði aldrei að vinna sig almennilega út úr þeim vandamálum því hún glímdi við eftirmála meiðslanna fram á haust.

Sara hafði unnið The Open og veitti líka Tiu-Clair Toomey mikla keppni á Rogue Invitational mótinu í júní.

Frammistaða Söru á Rogue Invitational þar sem Suðurnesjamærin var „aðeins“ 75 stigum á eftir Toomey sýndi að hún var að nálgast áströlsku yfirburðarkonuna.

Söru tókst hins vegar ekki að tryggja sig inn í ofurúrslitin í fyrri hlutanum og fékk því ekki tækifærið sem hún hafði stefnt á allt árið sem var að keppa við Tiu-Clair Toomey um heimsmeistaratitilinn í CrossFit.

Sara Sigmundsdóttir horfði á heimsleikana því heima frá sér í Keflavík en hún óskaði þeim fimm stelpum sem kepptu til hamingju með frammistöðuna.

„Hamingjuóskir til þeirra tíu sem börðust í gegnum allar greinarnar á heimsleikunum í Aromas. Þetta voru ómannúðlegar æfingar,“ skrifaði Sara Sigmundsdóttir á Instagram.

„Þegar kemur að keppni stelpnanna þá sýndi þær allar flott tilþrif inn á milli en einu sinni sem oftar þá bauð Tia-Clair Toomey upp á ótrúlega yfirburði,“ skrifaði Sara.

„Hamingjuóskir til Tíu með fjórða heimsmeistaratitilinn í röð. Við hinar eigum mikið verk framundan ef við ætlum að veita þér einhverja alvöru keppni á næsta tímabili,“ skrifaði Sara eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×