Fótbolti

Stefnir á að komast aftur í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sif Atladóttur langar að bæta við þá 82 landsleiki sem hún hefur leikið.
Sif Atladóttur langar að bæta við þá 82 landsleiki sem hún hefur leikið. vísir/bára

Sif Atladóttir ætlar að snúa aftur á fótboltavöllinn á næsta ári og stefnir að því að komast aftur í íslenska landsliðið. Hún hefur ekkert leikið á þessu ári en hún eignaðist sitt annað barn fyrir rúmum mánuði.

„Ég stefni að því að spila. Ég ætla að koma aftur á völlinn. Ég er ekki alveg búin með það sem ég ætlaði að gera,“ sagði Sif í samtali við Vísi.

Sif, sem er 35 ára, lék tvo leiki með íslenska landsliðinu í undankeppni EM á síðasta ári. Ísland mætir Svíþjóð í kvöld í gríðarlega mikilvægum leik í F-riðli undankeppninnar. Íslendingar mæta svo Ungverjum og Slóvökum í síðustu tveimur leikjunum í undankeppninni. Lokakeppni EM fer svo fram á Englandi 2022.

„Ég stefni að því að koma til baka og vonandi kem ég mér aftur inn í landsliðið. Það er ákveðið markmið. Það verður ótrúlega spennandi að sjá hvað gerist í þessum þremur leikjum. Svo er EM og ýmislegt framundan sem er spennandi,“ sagði Sif sem hefur spilað 82 landsleiki.

Sif leikur með Kristianstad í Svíþjóð og hefur gert síðan 2011. Liðinu hefur gengið vel á þessu tímabili og er í góðri stöðu til að vinna sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta ári.

„Það er ýmislegt sem maður er að stefna að. Við erum búnar að stefna lengi að þessu og erum mjög nálægt þessu. Það eru nokkur svona skref sem mann langar að klára áður en maður setur skóna alfarið á hilluna,“ sagði Sif að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×