Sænsk stjórnvöld hafa afnumið þau tilmæli um takmarkanir sem hafa beinst sérstaklega að fólki sjötíu ára og eldri. Lýðheilsustofnun landsins segir ástæðuna vera að smittíðnin í þessum hópi sé hlutfallslega lítil og á sama tíma sé óttast að einangrunin hafi alvarlegar andlegar og líkamlegar afleiðingar í för með sér.
„Allir í Svíþjóð muni bera sömu ábyrgð að vernda sjálfa sig og aðra,“ sagði félagsmálaráðherrann Lena Hallengren á fréttamannafundi í morgun.
Hallengren lagði áherslu á að hættan á að fólk eldri en sjötíu smitist af veirunni séu ekki minni nú en áður en tilmælin fyrir þann aldurshóp voru í gildi.
Frá upphafi faraldursins hafa sérstök tilmæli verið í gildi fyrir elsta aldurshópinn í Svíþjóð – tilmæli sem ganga út á að forðast líkamleg samskipti, sleppa því að nota almenningssamgöngur, að versla í búðum líkt og apótekum eða matvöruverslunum eða þá vera á öðrum stöðum þar sem fólk kemur saman.
Johan Carlson hjá Lýðheilsustofnun Svíþjóðar segir að tekið hafi verið eftir því að dregið hafi úr álaginu á heilbrigðiskerfið þar sem elsti aldurshópurinn hafi verið samviskusamur og farið eftir tillmælunum.
„Það er þó ekki hægt að láta þá í áhættuhópi bera svo mikla ábyrgð til lengdar. Sérstklega þegar við sjáum þær miklu andlegu og líkamlegu afleiðingar sem einangrunin hefur í för með sér,“ segir Carlson.