Heilbrigðisráðuneytið telur ekki stætt á því að banna hreyfingu í líkamsræktarstöðvum, hvar unnt sé að uppfylla sömu sóttvarnaskilyrði og gilda um íþróttastarf. Sömu skilyrði skuli gilda um íþróttaiðkun og líkamsrækt, þ.e. að iðka megi hvoru tveggja ef regla um 20 manna hámarksfjölda og 2 metra nálægðarmörk er virt. Líkamsræktarstöðvum er heimilt að opna á morgun innan þessa ramma.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu sem send var út til áréttingar vegna opnunar líkamsræktarstöðva.
Forsvarsmenn líkamsræktarstöðva hafa gagnrýnt misræmi í reglugerð heilbrigðisráðherra um íþróttaiðkun annars vegar og tilmæla sóttvarnalæknis hins vegar. Ákvæði nýrrar reglugerðar um samkomutakmarkanir, sem tekur á gildi á morgun, heimilar opnun líkamsræktarstöðva, sem hafa verið lokaðar síðan í byrjun mánaðar.
Sóttvarnalæknir hefur hins vegar talað fyrir því að stöðvunum verði lokað áfram í ljósi þess að þangað megi rekja mörg smit í þeirri bylgju kórónuveirufaraldursins sem nú gengur yfir.
Heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnalæknir funduðu í dag til að fara yfir þau ákvæði sem gilda um íþróttir og líkamsrækt í reglugerð heilbrigðisráðherra.
Jafnræðis og meðalhófs gætt
Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins sem send var út nú á fimmta tímanum er bent á að í nýjasta minnisblaði sóttvarnalæknis sé lagt til að íþróttaiðkun án snertingar verði leyfð að hámarki í 20 manna hópi, þar sem tveggja metra reglan er virt, sótthreinsun sinnt og engir áhorfendur viðstaddir. Aftur á móti hafi verið lagt til að líkamsræktarstöðvar skyldu lokaðar.
„Niðurstaða ráðuneytisins var sú að ekki væri stætt á því að banna hreyfingu í líkamsræktarstöðvum þar sem unnt væri að uppfylla sömu skilyrði og gilda um íþróttastarf,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. Ákvörðunin byggist á því að jafnræðis og meðalhófs sé gætt.
„Í reglugerðinni er því kveðið á um að líkamsræktarstöðvar megi vera opnar, að því gefnu að þar sé einungis stunduð starfsemi sem rúmast innan þeirra takmarkana sem reglugerðin setur. Ráðuneytið minnir á að öll blöndun milli hópa er óheimil, hvort sem er í tengslum við salernisaðstöðu, búningsaðstöðu, inn- og útganga o.s.frv,“ segir í tilkynningu.
Sóttvarnalæknir vinnur nú að gerð leiðbeininga til heilsuræktar- og íþróttastöðva á grundvelli reglugerðar heilbrigðisráðherra.
Líkamsræktarstöðvarnar World Class og Sporthúsið hafa þegar gefið það út að þær hyggist opna á morgun innan þess ramma sem reglugerðin býður. Þannig verði boðið upp á skipulagða hóptíma, að viðhöfðum fjöldatakmörkunum, tveggja metra reglu og öðrum sóttvörnum. Þá verða líkamsræktarstöðvar Hreyfingar einnig líklega opnaðar á morgun.