Leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta munu fljúga til Svíþjóðar á morgun til að auðvelda liðinu undirbúning fyrir leikinn mikilvæga á móti Svíþjóð í undankeppni EM en hann fer fram í næstu viku.
Svíþjóð tekur á móti Íslandi á þriðjudaginn í næstu viku í hreinum úrslitaleik um efsta sæti riðilsins en það lið sem vinnur þann leik fer langt með að tryggja sér sæti á Evrópumótinu.
Hér á landi eru enn strangar sóttvarnarreglur í gildi og því getur kvennalandsliðið ekki æft saman með eðlilegum hætti heima á Íslandi.
Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna, staðfesti það við Fótbolta.net í dag að KSÍ hafi brugðist fljótt við því og reddað vikuæfingabúðum fyrir kvennalandsliðið í Svíþjóð.
Kvennalandsliðið má ekki æfa á Íslandi - Verða viku í Svíþjóð https://t.co/LJwNV3T6Ri
— Fótbolti.net (@Fotboltinet) October 19, 2020
Íslenska landsliðið kemur saman í Gautaborg annað kvöld og verður þremur dögum fyrr á ferðinni en áætlað var.
„Upphaflega ætluðum við að byrja að æfa í dag hérna heima með þá leikmenn sem þar eru og koma síðan saman í Gautaborg á föstudaginn. Ég er mjög ánægður með þessa lendingu. Menn brugðust hratt við innan KSí og ég er mjög ánægður með að fá góðan tíma í undirbúning fyrir þennan leik,“ sagði Jón Þór Hauksson í samtali við Fótbolta.net.