Gylfi Þór Sigurðsson verður ekki með íslenska landsliðinu í fótbolta gegn því belgíska í Þjóðadeildinni á miðvikudaginn. Hann hélt til Englands í dag eins og ákveðið hafði verið fyrir þessa landsleikjahrinu.
„Það var búið að taka þá ákvörðun fyrir þetta verkefni að Gylfi færi út eftir fyrstu tvo leikina,“ sagði Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, við 433.is í morgun.
Gylfi lék allan leikinn þegar Ísland tapaði fyrir Danmörku, 0-3, í Þjóðadeildinni í gær. Hann lék einnig allan leikinn gegn Rúmeníu í EM-umspili á fimmtudaginn og skoraði bæði mörk Íslands í 2-1 sigri.
Sex lykilmenn verða því ekki með íslenska liðinu þegar það tekur á móti Belgum á miðvikudaginn. Auk Gylfa verða Jóhann Berg Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson og Alfreð Finnbogason ekki með. Búið var að ákveða að Jóhann Berg og Aron Einar myndu ekki spila gegn Belgum en Alfreð, Ragnar og Kári meiddust í leikjunum gegn Rúmeníu og Danmörku.
Ísland er án stiga á botni riðils 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Íslendingar töpuðu fyrri leiknum gegn Belgum, 5-1. Belgía er í 2. sæti riðilsins með sex stig. Belgar töpuðu fyrir Englendingum í gær, 2-1.
Gylfi og félagar í Everton eiga erfiðan leik fyrir höndum gegn Englandsmeisturum Liverpool í hádeginu á laugardaginn. Everton er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með fullt hús stiga eftir fjóra leiki.