„Þetta er mjög svekkjandi,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður, eftir 3-0 tapið gegn Dönum á Laugardalsvelli í kvöld.
„Við vorum að verjast mjög vel í fyrri hálfleik. Við héldum þeim frá færum. Ég held að þeir hafi ekki átt skot á markið fyrir utan markið. Við náðum breika á þá til að skora. Svo var þetta bara endirinn á fyrri og byrjunin á seinni sem drápu leikinn“
„Þetta eru bara pirrandi og léleg mörk að fá á okkur. Mér fannst við gera okkar mjög vel hvernig við lögðum upp leikinn í fyrri en svo skora þeir í 2-0 í upphafi seinni. Við gáfumst ekki upp en þeir eru mjög góðir með frábæra leikmenn. Þetta var mjög svekkjandi.“
Hann gat lítið sagt um fyrsta mark Dana í kvöld sem var umdeilanlegt.
„Ég er ekki búinn að sjá þetta og get ekkert sagt um það en á síðustu mínútunni er þetta fúlt. Að fara inn í hálfleik 0-0 er allt öðruvísi en þetta er virkilega svekkjandi.“
Guðlaugur Victor hefur verið einn af ljósu punktunum í leikjunum gegn Rúmeníu og Dönum. Hann segist vera að lifa og læra.
„Ég er að fá meiri og meiri reynslu. Ég er enn að læra. Ég vil bæta mig og læra. Ég og þjálfararnir erum að vinna í því. Ég er ánægður með hvernig þetta er búið að bætast. Það er margt enn inni og mig langar að verða betri. Það er metnaður fyrir því,“ sagði Victor í leikslok.