Keflavík og Fram gerðu jafntefli í toppslag Lengjudeildarinnar í gær en þau úrslit gerðu ekkert annað en að setja meiri spennu í baráttuna um sæti í Pepsi Max deildinni næsta sumar.
Keflvíkingar hefðu komist á toppinn með sigri og Framsigur hefði gefið Safamýrarliðinu fimm stiga forskot. Það kom sér líka vel fyrir bæði liðin að Leiknismenn náðu ekki að vinna sinn leik sem var á sama tíma í Grindavík.
Alex Freyr Elísson kom Fram yfir út vítaspyrnu á 60. mínútu en þurfti að fara meiddur af velli strax í kjölfarið. Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga fór líka meiddur af velli skömmu síðar.
Það stefndi í útisigur Framara en fjórum mínútum fyrir leikslok gerði Hlynur Atli Magnússon þau mistök að senda boltann í eigið mark og jafna metin.
Framarar misstu mann af velli í uppbótatíma en Keflvíkingum tókst ekki að tryggja sér sigurinn.
Fram er nú tveimur stigum á undan Keflavík og Leiknismenn eru síðan stigi á eftir Keflvíkingum. Keflavík á enn möguleika á að hrifsa til sín toppsætið því liðið á leik inni á hin tvö liðin.
Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leik Keflavíkur og Fram í Lengjudeild karla í fótbolta í gær.