Jón Þór Hauksson hefur tilkynnt byrjunarlið Íslands fyrir leikinn gegn Lettlandi í undankeppni EM. Leikurinn hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst hálftíma fyrir leik.
Sveindís Jane Jónsdóttir er í byrjunarliðinu og leikur sinn fyrsta landsleik. Samherjar hennar í Breiðabliki, Alexandra Jóhannsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, eru einnig í byrjunarliðinu. Þetta er í fyrsta sinn sem Karólína byrjar keppnisleik með landsliðinu. Sveindís, Alexandra og Karólína eru allar tuttugu ára eða yngri.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er hægri bakvörður, Hallbera Gísladóttir er á sínum stað í stöðu vinstri bakvarðar og Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir miðverðir. Sandra Sigurðardóttir er í markinu.
Evrópumeistarinn Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir og Alexandra eru á miðjunni, Sveindís og Karólína á köntunum og Elín Metta Jensen fremst.
Sara leikur sinn 132. landsleik í dag en hún jafnar væntanlega leikjamet Katrínar Jónsdóttur með landsliðinu þegar Ísland tekur á móti Svíþjóð á þriðjudaginn.
Byrjunarlið Íslands gegn Lettlandi!
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) September 17, 2020
Leikurinn hefst kl. 18:45 og verður í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.
Our starting lineup for our game against Latvia in the @WEUROEngland22 qualifiers.#LeiðinTilEnglands #dottir pic.twitter.com/92p0Na182R
Ísland hefur unnið alla þrjá leiki sína í undankeppninni. Fyrri leik Íslands og Lettlands lauk með 0-6 sigri Íslendinga.
Leikur Íslands og Lettlands er í beinni textalýsingu á Vísi sem má finna hér.