Íslenska karlalandsliðið í fótbolta æfði á Roi Baudouin vellinum í Belgíu í dag fyrir leikinn við heimamenn í Þjóðadeildinni annað kvöld.
Erik Hamrén landsliðsþjálfari sagði alla leikmenn hafa verið með á æfingunni en íslenska liðið hefur þó breyst talsvert frá því í leiknum við England á laugardag.
Hannes Þór Halldórsson fékk ekki leyfi frá Val til að fara í leikinn, Hamrén taldi best að Kári Árnason og Kolbeinn Sigþórsson spiluðu ekki tvo leiki á svo skömmum tíma, en báðir hafa glímt við meiðsli í sumar, og Sverrir Ingi Ingason tekur út leikbann eftir rauða spjaldið gegn Englandi.
Patrik Gunnarsson og Alfons Sampsted eru hins vegar mættir með til Belgíu eftir að hafa spilað með U21-landsliðinu í 1-0 sigrinum gegn Svíþjóð á föstudaginn.
Svipmyndir af æfingunni í dag má sjá hér að neðan.