Mark sem Þróttur Reykjavík skoraði gegn Leikni Fáskrúðsfirði í Lengjudeildinni stóð ekki þar sem að flautað hafði verið til hálfleiks sekúndubrotum áður en boltinn fór yfir línuna.
Hér að neðan má sjá markið úr útsendingu Stöðvar 2 Sport frá leiknum.
Þróttarar komu boltanum í netið eftir að Bergsteinn Magnússon í marki Leiknis hafði misst hann frá sér.
Einar Ingi Jóhannsson, dómari leiksins, hafði ekki ætlað sér að hafa neinn uppbótartíma þar sem engar tafir voru í leiknum, en Þróttur fékk aukaspyrnu á miðjunni þegar nokkrar sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik. Þróttarar fengu að taka spyrnuna, Bergsteinn virtist hafa gripið boltann og þá blés Einar Ingi í flautuna. En í sama mund missti Bergsteinn boltann og Þróttarar komu honum í netið, andartaki of seint.
Þetta gæti reynst dýrkeypt fyrir Þrótt sem er í fallsæti með 8 stig líkt og botnlið Magna, enn þremur stigum á eftir Leikni.