Erlent

Búist við að Suga til­kynni um for­manns­fram­boð

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 71 árs gamli Yoshihide Suga hefur gegnt embætti samhæfingarráðherra í ríkisstjórn Abe frá árinu 2012 og verið sem slíkur eitt helsta andlit stjórnarinnar.
Hinn 71 árs gamli Yoshihide Suga hefur gegnt embætti samhæfingarráðherra í ríkisstjórn Abe frá árinu 2012 og verið sem slíkur eitt helsta andlit stjórnarinnar. AP

Fastlega er búist við að Yoshihide Suga, einn nánasti samstarfsmaður japanska forsætisráðherrans Shinzo Abe, muni í dag tilkynna um formannsframboð í Frjálslynda flokknum þar í landi.

Næsti formaður flokksins mun jafnframt taka við forsætisráðherraembættinu af Abe sem tilkynnti óvænt um afsögn sína í síðustu viku vegna heilsubrests.

Hinn 71 árs gamli Suga hefur gegnt embætti samhæfingarráðherra í ríkisstjórn Abe frá árinu 2012 og verið sem slíkur eitt helsta andlit stjórnarinnar. Hann hefur einnig gegnt þingmennsku frá árinu 1996.

Suga nýtur mestrar vinsælda líklegra frambjóðenda innan flokksins og hefur nú þegar tryggt sér stuðning fimm flokksfélaga af sjö.

Nafn varnarmálaráðherrans fyrrverandi, Shigery Ishiba, hefur einnig verið nefnt í vangaveltum um næsta formann Frjálslynda flokksins, sem og nafn utanríkisráðherrans fyrrverandi, Fumio Kishida. Kannanir hafa sýnt að Ishiba njóti mestrar vinsælda meðal almennings, en Suga innan sjálfs flokksins.

Leiðtogakjör fer fram í Frjálslynda flokknum þann 14. september næstkomandi.

Abe varð í síðasta mánuði þaulsetnasti forsætisráðherrann í sögu Japans. Hann hefur gegnt embættinu frá árinu 2012, en auk þess gegndi hann embættinu á árunum 2006 til 2007.


Tengdar fréttir

Abe hættur

Gert er ráð fyrir því að Shinzo Abe tilkynni um afsögn sína síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×