Anníe Mist Þórisdóttir keppir ekki á heimsleikunum í CrossFit í ár en mun engu að síður koma að þeim sem einn af fjórum meðlimum nýskipaðs íþróttamannaráðs CrossFit.
CrossFit samtökin sóttust eftir liðsinni frá fyrstu konunni sem varð heimsmeistari í annað skiptið og afrekskonu sem hefur verið í kringum heimsleikana í meira en áratug.
Það efast enginn um þann mikla reynslubanka sem Anníe Mist hefur búið til með þátttöku sinni á tíu heimsleikum og fimm sætum á verðlaunapalli. Það er líka flott viðurkenning á CrossFit íþróttinni á Íslandi að íslensk kona sé í þessum úrvalshópi CrossFit.
Annie Mist var búin að vinna sér inn keppnisrétt á heimsleikunum en gaf sætið eftir þegar hún fór í barnsburðarleyfi.
Eins og hefur komið margoft áður fram þá er Anníe Mist Þórisdóttir að jafna sig eftir að hafa eignast dóttur 10. ágúst síðastliðinn.
Anníe Mist er byrjuð að hreyfa sig á ný og leyfir fylgjendum sínum að fylgjast með ferlinum. Það er bjart yfir nýjustu færslu hennar á Instagram sem er uppgjör hennar þegar tvær vikur eru frá barnsburðinum.
„Ég þekki ekki nýja líkamann minn ennþá en kannast betur og betur við hann á hverjum degi. Með hverjum degi þá safna ég meiri kröftum. Hægt og rólega mun vinna þetta hlaup en það er stórkostlegt að geta farið að hreyfa sig á ný,“ skrifaði Anníe Mist.
„Það var ekki auðvelt að hugsa um æfingarnar mínar þegar ég var ófrísk. Mér leið samt vel þrátt fyrir að þyngdirnar og ákefðin minnkuðu. Ég hugsaði oft um hvernig æfingar yrðu léttari eftir að ég missti fimmtán kíló en nú verð ég móð við það að ganga upp stiga,“ skrifaði Anníe Mist.
„Ég veit að hluti ástæðunnar er blóðmissirinn og álagið á líkamann. Ég veit að ég verð aftur eðlileg en það er erfitt að verða ekki óþolinmóð,“ skrifaði Anníe Mist.
„Þó að þú búist við því að eitthvað verði krefjandi og undirbýrð þig andlega fyrir erfiðleika þá lendir þú samt í því að efast um sjálfan þig. Þér finnst þig vanta hvatningu og ert oft mjög pirruð. Það er allt í lagi,“ skrifaði Anníe Mist.
„Ekki ýta því í burtu heldur taktu á móti því og notaðu það til að hlaða bensíntankinn fyrir ferðina fram undan. Það er aldrei stutt að fara á þá staði sem er þess virði að fara,“ skrifaði Anníe Mist eins og sjá má hér fyrir neðan.