Leikararnir Brad Pitt og Jennifer Aniston eru á meðal Hollywood leikara sem taka þátt í upplestri á handriti kvikmyndarinnar Fast Times at Ridgemont High. Upplesturinn fer fram á netinu og verður sýnt frá viðburðinum á Facebook. Þessi Feelin' A-Live viðburður Dane Cook er til styrktar góðgerðarmálum.
Brad og Jennifer skildu árið 2005 eftir fimm ára hjónaband. Það vakti mikla athygli þegar þau voru mynduð saman á SAG verðlaununum. Margir aðdáendur þeirra fagna því að þau séu vinir og vona einhverjir að þau endi aftur saman.
Á meðal þeirra sem taka þátt í upplestrinum með þeim eru Jimmy Kimmel, Morgan Freeman, Shia LaBeouf, Matthew McConaughey og Julia Roberts. Sean Penn tekur einnig þátt, en hann vakti mikla athygli fyrir leik sinn í Fast Times kvikmyndinni þegar hún kom út árið 1982.
Samkvæmt frétt CNN mun þessi upplestur verða sýndur í beinni útsendingu án þess að leikararnir hafi æft saman. Safnað verður fyrir samtökin Core og Reform Alliance. Auglýsingu fyrir góðgerðarviðburðinn má sjá hér fyrir neðan.