Grunur er um tvö tilfelli Wuhan-veitusmits í norðurhluta Finnlands. Þetta kemur fram í finnskum fjölmiðlum í morgun.
Alls hafa 26 manns látist af völdum veirunnar og mörg hundruð smitast, en um er að ræða afbrigði kórónaveiru og eru upptök hennar rakin til matarmarkaðar í kínversku borginni Wuhan.
YLE segir frá því að um sé að ræða meðlimi kínverskrar fjölskyldu frá Wuhan sem er á ferðalagi í Finnlandi. Tveir úr fjölskyldunni hafi leitað á heilsugæslu í bænum Ivalo eftir að þeir fundu fyrir flensueinkennum.
Prufurnar hafa verið sendar til höfuðborgarinnar Helsinki til rannsóknar þar sem búist er við að niðurstaða liggi fyrir síðdegis í dag eða í kvöld.
Kínverjar hafa lagt ferðabann á íbúa átta borga til viðbótar við þær tvær sem lokað var í gær til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Hefur einnig verið gripið til fjölda annarra ráðstafana, meðal annars að banna fjöldasamkomur, aflýsa ýmsum nýársfögnuðum, loka skemmtigörðum, auk þess að eftirlit hefur verið aukið á flugvöllum.
Búið er að staðfesta smit í Suður-Kóreu, Japan, Hong Kong, Makaú, Taílandi, Taívan, Singapúr, Víetnam og Bandaríkjunum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir neyðarástand ríkja í Kína vegna veirunnar, en hefur ekki skilgreint ástandið sem heimsfaraldur.