Körfubolti

Thelma farin að raða niður þristum eins og mamma sín: Fær mikið hrós

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thelma Dís Ágústsdóttir.
Thelma Dís Ágústsdóttir. Skjámynd/Youtube/Ball State All-Access

Keflvíkingurinn Thelma Dís Ágústsdóttir fær mikið hrós fyrir frammistöðu sína með Ball State í bandaríska háskólakörfuboltanum.

Thelma Dís er á sínu öðru ári með Ball State háskólaliðinu og hefur tekið mikið stökk á þessu ári samkvæmt þjálfara sínum.

Thelma Dís var með 21 stig á 28 mínútum í lokaleik ársins þar sem Ball State vann 84-49 sigur á Urbana háskólanum. Thelma Dís setti niður fimm þrista í leiknum en móðir hennar, stórskyttan Björg Hafsteinsdóttir, er ein mesta þriggja stiga skyttan í sögu íslenska körfuboltans.



Thelma Dís hitti úr 8 af 13 skotum sínum og var einnig með 4 fráköst og 3 stoðsendingar í leiknum.

Thelma Dís er með 10,5 stig, 4,3 fráköst og 1,9 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu tólf leikjum tímabilsins en í fyrravetur var hún með 9,6 stig, 4,1 frákast og 2,0 stoðsendingar að meðaltali.

Leikurinn á móti Urbana er kallaður svokallaður „breakout“ leikur Thelmu á Youtube síðu Ball State og þar er bæði viðtal við þjálfara hennar og hana sjálfa eins og sjá má hér fyrir neðan.



„Ég er farin að setja þá pressu á mig sjálfa að gera meira inn á vellinum og vera ákveðnari,“ segir Thelma Dís Ágústsdóttir í viðtalinu á Youtube síðu skólans, Ball State All-Access.

„Hún veit hvað hún á að gera, hún veit vel að hún getur þetta og hún veit að liðið þarf á því að halda að hún taki af skarið,“ sagði þjálfari hennar Brady Sallee.

„Ég veit að ég þarf að taka fleiri skot og sjá til þess að andstæðingarnir þurfi að passa mig betur en á síðasta tímabili,“ segir Thelma Dís.



„Á síðasta tímabili var hún meira í fyrirgefðu hugsunarhættinum en núna er hún kominn með meira “swag“ því hún veit að hún er góð. Hún veit að hún er ein af okkar aðalskorurum og við þurfum á hennar stigum að halda,“ sagði Brady Sallee.

Þjálfarinn hrósar Thelmu líka fyrir að vera dugleg í lyftingarsalnum en þær æfingar séu að skila sér inn á vellinum og þá sérstaklega í varnarleiknum.

Það má sjá umfjöllunina um Thelmu Dís hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×