Vegna nýrra samkomutakmarkana mun Borgarleikhúsið þurfa að fresta fyrstu sýningum leikársins og færa þær á nýjar dagsetningar. Þó verða allir miðar tryggðir og nýjar dagsetningar tilkynntar um leið og þær liggja fyrir.
Núgildandi samkomutakmarkanir kveða á um hundrað manna hámark og þá er tveggja metra reglan svokallaða aftur komin í gildi.
Í tilkynningu frá leikhúsinu segir að kortasala hafi gengið vel og því sé ljóst að landsmenn séu þyrstir í að lyfta sér upp og komast í leikhús þrátt fyrir óvissutíma. Miðasalan verði því áfram opin þó sýningardagar geti færst til.
„Starfsfólk Borgarleikhússins þakkar skilninginn og við hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu um leið og okkur verður fært að hefja sýningar á nýjan leik,“ segir að lokum.