Fótbolti

Sara gæti orðið Evrópumeistari í ágúst

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir kom til Lyon fyrir skömmu og gerði samning við félagið sem gildir til ársins 2022.
Sara Björk Gunnarsdóttir kom til Lyon fyrir skömmu og gerði samning við félagið sem gildir til ársins 2022. mynd/@olfeminin

Sara Björk Gunnarsdóttir gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir stórlið Lyon þegar það mætir Bayern München þann 22. ágúst í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Óvissa ríkti um það hvort Sara fengi að spila í keppninni með Lyon eftir að hafa spilað fyrir Wolfsburg í vetur og komist með liðinu í 8-liða úrslitin. UEFA hefur hins vegar ákveðið að vegna þess að keppnin dróst á langinn, vegna kórónuveirufaraldursins, megi félög skrá allt að sex nýja leikmenn fyrir lokakaflann núna í ágúst. Að hámarki þrír þessara leikmanna mega hafa spilað fyrir annað lið sem er með í 8-liða úrslitunum, eins og í tilviki Söru.

Úrslitin í Meistaradeildinni áttu að ráðast í vor en voru færð fram í ágúst vegna faraldursins. Átta lið standa eftir og spila í Bilbao og San Sebastián á Spáni frá 21.-30. ágúst. Leiknir verða stakir leikir í 8-liða úrslitum og undanúrslitum, í stað tveggja leikja eins og vaninn er.

Lyon mætir Bayern í 8-liða úrslitunum og með sigri fær liðið leik við Arsenal eða PSG í undanúrslitum. Sara gæti því mögulega mætt sínu gamla liði Wolfsburg í úrslitaleiknum 30. ágúst.

Sara er ein af fjölda leikmanna sem skipt hafa um lið í sumar eftir að samningar þeirra runnu út 30. júní. Í sumum tilvikum tókst félögum reyndar að framlengja samninga um tvo mánuði, en þessi staða varð til þess að UEFA gerði tímabundna breytingu á reglum sínum til að tryggja að sem flestar af bestu knattspyrnukonum heims yrðu með á lokastigum Meistaradeildarinnar.

Lyon náði að framlengja samninga við enska tvíeykið Lucy Bronze og Alex Greenwood um tvo mánuði, og félagið hélt þeim Söruh Bouhaddi og Dzsenifer Marozsán sem virtust vera á leið til Bandaríkjanna. Þá hafa þær Sara, ástralski varnarmaðurinn Ellie Carpenter, markvörðurinn Lola Gallardo og bakvörðurinn Sakina Karchaoui bæst í hópinn. Aðeins tvær þeirra, Sara og Carpenter, koma frá félögum sem enn eru með í keppninni og Sara mun því geta leikið með Lyon. 

Vinni Wolfsburg keppnina mun Sara hafa átt sinn þátt í því en hún lék þrjá leiki með liðinu í Meistaradeildinni síðasta haust og skoraði eitt mark. Hún hefur þegar orðið þýskur meistari og bikarmeistari með liðinu, fjórða árið í röð, nú í sumar.


Tengdar fréttir

Gat ekki sagt nei við besta lið heims: „Finn að ég þrái meira“

„Það er auðvitað ótrúlega mikill heiður að besta lið í heimi hafi sýnt manni svona mikinn áhuga,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, sem skrifað hefur undir samning til tveggja ára við Evrópu- og Frakklandsmeistara Lyon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×