Davíð Þór Viðarsson segir að HK hafi saknað Valgeirs Valgeirssonar gríðarlega mikið í leiknum gegn Val á sunnudaginn og hann sé mikilvægasti leikmaður liðsins.
Valgeir meiddist í 0-3 sigri HK á KR um þarsíðustu helgi og hefur misst af tveimur síðustu leikjum liðsins; 1-2 sigri á Magna í Mjólkurbikarnum og 0-4 tapinu fyrir Val í Pepsi Max-deildinni.
„Í upphitunarþættinum fyrir mót kunnu ég ekki við að velja Valgeir Valgeirsson sem lykilmann því hann er bara sautján ára. Maður vildi ekki setja pressu á hann. En guð minn góður hvað hann er þeirra langmikilvægasti leikmaður,“ sagði Davíð í Pepsi Max Stúkunni í gær.
Guðmundur Benediktsson tók undir með Davíð og sagði að Valgeir væri ekki bara lykilinn að árangri HK, heldur öll lyklakippan.
Valsmenn fengu nægan tíma til að athafna sig í leiknum gegn HK-ingum sem settu þá sjaldnast undir pressu. Davíð segir að Valgeir gangi fram með góðu fordæmi í þeim efnum.
„Hann gefur þessu liði svo ótrúlega mikið. Hann er ekki með augun á leikmanni sem er með boltann og fer ekki í pressu. Í hvert einasta skipti sem boltinn er í fimm metra radíus keyrir hann inn, lætur menn finna fyrir því, sparkar aðeins í þá og hleypur svo brosandi í burtu,“ sagði Davíð.