Skoðun

Kaflaskil SÁÁ

Afstaða, félag fanga, hefur nokkurn áhuga á aðalfundi SÁÁ á morgun, þriðjudaginn 30. júní 2020, og stjórnarkosningum sem fara fram á fundinum.

Mikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu en nokkur vindgustur hefur blásið um ganga inni á Vogi.

Afstaða hefur átt erfið samskipti við SÁÁ en að mati félagsins er starf SÁÁ gamaldags og ekki er tekið á nútímavanda fíkla. Vogur gegndi sínu hlutverki vel þegar stærsti hlutur sjúklinga voru ofdrykkjufólk, sem streymdi inn á sjúkrahúsið. Þegar árin liðu og vímuefni, önnur en áfengi, fóru að spila stærsta hlutverkið í meðferðarvanda Íslendinga, dróst SÁÁ aftur úr. Ákvarðanir og meðferðarúrræði eru ekki byggð á nægjanlegri þekkingu fagfólks heldur hefur stjórn samtakanna skipt sér of of mikið af meðferðarstarfinu sjálfu. Þeir sérfræðingar sem hafa nútímahugmyndir eru helst settir til hliðar.

Þórarinn Tyrfingsson og hans fólk hefur vissulega gert góða hluti í gegnum tíðina. Þau komu Vogi á laggirnar og björguðu fjölmörgum alkóhólistanum. En tímarnir hafa breyst.

Afstaða lýsir yfir stuðningi við stjórnarbreytingar innan SÁÁ og vonast til þess að ný og framsækin stjórn takið við af þeirri eldri. Með það að leiðarljósi lýsir Afstaða yfir stuðningi við Einar Hermannsson og vonast til þess að Valgerður Rúnarsdóttir haldi áfram sem yfirlæknir á Vogi. Þannig má treysta því að starfið á Vogi verði unnið á faglegum grunni í framtíðinni.

F.h Afstöðu, félags fanga á Íslandi

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×