Franska stórliðið Paris Saint-Germain er í áskrift þegar kemur að franska meistaratitlinum en liðið hefur mikið byggt á Suður-Amerískum stórstjörnum. Nú eru tvö af stærstu nöfnum félagsins að verða samningslaus og er ljóst að þeir leikmenn fá samninga ekki endurnýjaða.
Þar sem tímabilinu í Frakklandi var aflýst vegna kórónufaraldursins þá er ljóst að þeir Thiago Silva – fyrirliði liðsins – og Edison Cavani munu ekki spila í París á næstu leiktíð.
Edinson Cavani and Thiago Silva will both leave PSG at the end of the season, confirms sporting director Leonardo https://t.co/VmHkXCAtR9
— MailOnline Sport (@MailSport) June 14, 2020
Cavani, sem er einn af fjölmörgum heimsklassa framherjum sem kemur frá Úrúgvæ, er markahæsti leikmaður í sögu PSG með 200 mörk frá árinu 2013. Hinn 33 ára gamli Cavani hefur verið orðaður við spænska félagið Atletico Madrid þar sem hann mun að öllum líkindum taka stöðu Diego Costa í framlínu liðsins.
Hinn 35 ára gamli Silva hefur verið lykilmaður í varnarleik liðsins frá því hann kom frá AC Milan árið 2012. Óvíst er hvað tekur við hjá þessum magnaða brasilíska varnarmanni á næstu leiktíð.