Hið íslenska glæpafélag veitti Sólveigu Pálsdóttur Blóðdropann, verðlaun fyrir bestu íslensku glæpasögu ársins, fyrir bók hennar „Fjötra“ í dag. Tuttugu bækur voru tilnefndar til verðlaunanna í ár og hafa þær aldrei verið fleiri.
„Fjötrar“ er fimmta bók Sólveigar og segir bókin frá konu sem finnst látin í klefa sínum í fangelsinu á Hólmsheiði. Í umsögn dómnefndar segir að Sólveig flétti í bókinni á frumlegan og öruggan hátt saman „sögum af mannshvarfi, misnotkun og sjálfsskaða í spennandi frásögn sem litast af leyndarmálum fjölskyldna“.
Bók Sólveigar verður framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, á næsta ári. Í tilkynningu Hins íslenska glæpafélags kemur einnig fram að breskir framleiðendur vinni nú að gerð sjónvarpsþáttaraðar sem byggir á fyrri bók Sólveigar, „Refnum“.
Dómnefndina skipuðu þau Páll Kristinn Pálsson, Helga Birgisdóttir og Kristján Atli Ragnarsson.