Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson er á fullu að undirbúa sig fyrir hnefaleikabardaga við Eddie Hall sem fer fram í Las Vegas á næsta ári.
Hafþór og Hall hafa marga hildi háð síðustu ár en á dögunum sló Hafþór heimsmet Bretans með því að lyfta 501 kg í réttstöðulyftu, einu kílói meira en Hall gerði árið 2016. Þeir hafa einnig mæst í keppninni Sterkasti maður heims þar sem Hall vann árið 2017 eftir harða keppni við Hafþór. Hafþór, sem hefur átta ár í röð komist á verðlaunapall í keppninni, vann hana árið 2018 og varð í 3. sæti í fyrra.
Fjallið greinir frá því á Facebook að hann sé í dag 188 kíló en hafi verið 206 kíló þegar hann byrjaði að æfa sig undir bardagann. Hafþór hefur áður sagt að hann verði að létta sig um fjörutíu kíló í undirbúningnum og fer hann mjög vel af stað.