Innlent

Reyna að tryggja skólastarf í faraldrinum

Kjartan Kjartansson skrifar
Grunnskólar mega hafa kennslu í skólabyggingum ef þeir tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, til dæmis í mötuneyti eða frímínútum. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa skólabyggingarnar eftir hvern dag.
Grunnskólar mega hafa kennslu í skólabyggingum ef þeir tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, til dæmis í mötuneyti eða frímínútum. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa skólabyggingarnar eftir hvern dag. Vísir/Vilhelm

Samráðshópur sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur kallað saman á að reyna að tryggja að námi og kennslu í skólum verði haldið uppi þrátt fyrir kórónuveiruheimsfaraldurinn sem geisar nú. Skólar verða ýmist lokaðir eða þurfa að gera ráðstafanir til að takmarka smithættu þegar samkomubann stjórnvalda tekur gildi á mánudag.

Sveitarfélög, skólastjórnendur, og kennarar á ýmsum skólastigum eru á meðal þeirra sem eiga fulltrúa í samráðshópnum sem fundaði fyrst á fimmtudag.

„Mikil samskipti hafa síðan átt sér stað, sér í lagi í kjölfar tilkynningar um takmörkun á skólahaldi í gær. Markmið hópsins er að tryggja að sem best verði haldið utan um skólastarf með hagsmuni og velferð nemenda að leiðarljósi,“ segir í tilkynningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem ástandinu í íslensku samfélagi er lýst sem fordæmalausu.

Samráðshópurinn er skipaður fulltrúum frá: Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélagi Íslands, Skólameistarafélags Íslands, Félagi stjórnenda leikskóla, Félagi leikskólakennara, Félagi grunnskólakennara, Félagi framhaldsskólakennara, Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Umboðsmanni barna, Samtakanna Heimilis og skóla, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Landssamtökum íslenskra stúdenta, Samfés, Menntamálastofnunar, Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×