Fótbolti

Guðlaugur Victor í baráttu um sæti í efstu deild en Rúrik áfram í frystiklefanum

Sindri Sverrisson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson er á góðu skriði í Þýskalandi.
Guðlaugur Victor Pálsson er á góðu skriði í Þýskalandi. VÍSIR/GETTY

Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn þegar lið hans Darmstadt vann 3-1 á útivelli gegn Erzgebirge Aue í þýsku 2. deildinni í fótbolta í kvöld.

Guðlaugur Victor var valinn leikmaður umferðarinnar hjá Kicker eftir 4-0 sigurinn á St. Pauli um helgina. Eftir sigurinn í dag er hann svo nú með liði Darmstadt í bullandi baráttu um að komast upp í efstu deild.

Darmstadt er í 5. sæti með 42 stig eftir 28 leiki en hefur leikið einum leik meira en liðin fyrir ofan. Stutt er í næstu lið sem eru Heidenheim (44 stig), Stuttgart (45) og Hamburg (46), en Arminia Bielefeld er efst með 53 stig. Tvö efstu liðin komast beint upp í efstu deild en liðið í 3. sæti kemst í umspil við þriðja neðsta liðið úr efstu deild.

Rúrik Gíslason er áfram í frystiklefanum hjá Sandhausen sem vann 1-0 á útivelli gegn Wehen Wiesbaden. Rúrik er með samning við Sandhausen sem rennur út eftir mánuð og samkvæmt hlaðvarpsþættinum Dr. Football neitaði hann að lækka laun sín hjá félaginu þann tíma, eins og farið var fram á vegna kórónuveirukrísunnar. Þess vegna fái hann ekki einu sinni að æfa með liðinu.


Tengdar fréttir

Mark og stoðsending frá Guðlaugi Victori í mikilvægum sigri

Guðlaugur Victor Pálsson átti flottan leik fyrir Darmstadt sem vann 4-0 sigur á St. Pauli í þýsku B-deildinni í knattspyrnu í dag en Rúrik Gíslason var ekki í leikmannahópi Sandhausen sem gerði markalaust jafntefli við SSV Jahn Regensburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×