Fjöldi kórónuveirusmita eru nú fleiri í Brasilíu en á Spáni og Ítalíu. Landið skipar nú fjórða sæti á lista yfir þau þar sem flest smit hafa komið upp, en einungis hafa fleiri smit komið upp í Bandaríkjunum, Rússlandi og Bretlandi.
Heilbrigðisyfirvöld í Brasilíu greindu frá því í gær að tæplega 15 þúsund smit hafi komið upp sólarhringinn á undan, þannig að heildarfjöldinn væri þá kominn upp í 233.142. Á sama tíma voru 816 dauðsföll sögð rakin til Covid-19, þannig að heildarfjöldi látinna er nú kominn upp í 15.633 í Brasilíu.
Í frétt BBC segir að sérfræðingar telji að raunverulegur fjöldi smita í Brasilíu kunni að vera mun hærri en sá sem gefinn er upp, vegna lítillar sýnatöku. Greint hefur verið frá því að í Brasilíu séu einungis tekin sýni úr þeim sem hafna á sjúkrahúsi.
Jair Bolsonaro Brasilíuforseti hefur sætt mikilli gagnrýni bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi fyrir viðbrögð stjórnar hans við faraldrinum. Bolsonaro hefur verið staðfastur í andstöðu sinni við hugmyndir um lokanir og útgöngubann, en hann hefur kallað kórónuveiruna „litlu flensuna“ og sagt útbreiðslu hennar óumflýjanlega.