Fjármálaráðherrar G20-ríkjanna samþykktu að frysta afborganir fátækustu ríkja heims af skuldum þeirra út þetta ár vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveiruheimsfaraldursins á fjarfundi sínum í dag. Hundruð fjármálafyrirtækja fóru í kjölfarið að fordæmi ríkjanna.
Frysting skuldanna á að losa um meira en tuttugu milljarða dollara, jafnvirði um 2.870 milljarða íslenskra króna, fyrir fátæku ríkin sem þau geta þá varið í heilbrigðiskerfið og að glíma við faraldurinn, að sögn Mohammed al-Jadaan, fjármálaráðherra Sádi-Arabíu sem stýrði fundi ráðherra G20-ríkjanna að þessu sinni.
Ríki sem Alþjóðabankinn og Sameinuðu þjóðirnar skilgreina sem á meðal þeirra fátækustu og vanþróuðustu í heimi eiga rétt á því að fá skuldir sínar frystar svo lengi sem þau hafa verið í skilum við bankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) til þessa, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
AGS varaði við því í gær að heimurinn stæði nú frammi fyrir mesta samdrætti frá því í Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar vegna heimsfaraldursins. Sjóðurinn spáir því að hagkerfi allra ríkja, bæði iðnríkja og þróunarríkja, muni dragast verulega saman á þessu ári. Hann samþykkti að fella niður skuldir 25 ríkja tímabundið vegna faraldursins í gær.
Alþjóðleg samtök fjármálafyrirtækja sem 450 bankar, vogunarsjóðir og önnur fjármálafyrirtæki eiga aðild að segjast ætla að taka þátt í aðgerð G20-ríkjanna að eigin frumkvæði.