Íslenskt landslið í strandhandbolta gæti átt eftir að keppa á Ólympíuleikunum í París árið 2024. Það er að minnsta kosti stefnan hjá Haraldi Þorvarðarsyni, handboltaþjálfara.
Haraldur hefur komið að skipulagningu árlegs strandhandboltamóts hér á landi en þar hefur áherslan verið á að liðin skemmti sér í skrautlegum búningum. Í febrúar sendi alþjóða handknattleikssambandið hins vegar inn formlega beiðni um að strandhandbolti verði spilaður á Ólympíuleikunum 2024 og alvaran í íþróttinni gæti því farið að aukast mikið hér á landi:
„Þetta er búið að vera spilað af alvöru úti í heimi en við höfum hingað til meira gert þetta til gamans hérna heima. En nú þurfum við að setja kraft í þetta vegna þess að við viljum auðvitað vera með landslið í strandhandbolta á Ólympíuleikunum eins og önnur lönd,“ sagði Haraldur í Sportinu í dag.
Í strandhandbolta eru fjórir leikmenn inni á vellinum í hvoru liði; þrír útileikmenn og einn markvörður. Ljóst er að aðstaðan til að spila strandhandbolta er ekki sú besta árið um kring hér á landi en Haraldur hefur ekki miklar áhyggjur af því:
„Þetta verða auðvitað bara handboltamenn sem verða teknir í þetta og svo fara fram sérhæfðar strandæfingar úti á strandvelli. Það á eftir að plana það allt nánar.“
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.