Pönktrymbillinn og teiknarinn Fannar Örn Karlsson setti saman harðkjarna pönklista sem smellpassar við hvers kyns uppreisnartilburði sem sólin mun leiða fólk út í á næstunni.
Lagalistann titlar Fannar „VARÚÐ: Aðeins fyrir allra mestu stuðboltana“: Blaðamaður vill beina þeim tilmælum beint til lesenda, og vara í leiðinni alla fýlupúka og leiðindaskarfa við.
Fannar leikur meðal annars með D7Y, Dauðyflunum og Börnum. Drungapönksveitina Börn segir Fannar vera að klára upptökur á nýrri plötu og Dauðyflin segir hann vera að búa sig undir á að hefja upptökur á nýrri plötu.
„Svo er Óreiða að fara að gefa út noise kassettu eftir mig undir einhverju nafni sem ég er ekki búinn að ákveða. Kemur í ljós,“ bætir Fannar við.
Að lokum segir hann að hann hafi ekkert um lagalistann að segja, annað en að þetta sé „bara gott hardcore paunk.“