Sport

Rándýrt aprílgabb skilar nú bullandi gróða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Auglýsing fyrir varning hjá gervifélaginu Beans Lacrosse Club.
Auglýsing fyrir varning hjá gervifélaginu Beans Lacrosse Club. Mynd/Premier Lacrosse League

Bandaríska atvinnumannadeildin í háfleik (lacrosse) er nú ekki beint sú stærsta eða frægasta deildin í fjölbreyttu íþróttalífi Bandaríkjamanna.

Rándýrt aprílgabb deildarinnar virðist hins vegar hafa slegið óvænt í gegn og komið þessari nýlegu deild á kortið ekki síst í sölu varnings.

1. apríl síðastliðinn tilkynnti bandaríska atvinnumannadeildin í háfleik að liðið væri búið að taka sjöunda félagið inn í deildina og það hefði fengið nafnið Beans Lacrosse Club. Þetta var bara aprílgabb en sló samt í gegn.

Beans Lacrosse Club átti nefnilega að vera áttunda félagið í deildinni. Tilkynningin og aprílgabbið var metnaðarfullt í meira lagi.

Beans Lacrosse Club félagið fékk merki, slagorð, heimasíðu, varning og formlega fréttatilkynningu. Auðvitað var félagið líka kynnt rækilega á netinu með því að smella því út á öllum helstu samfélagsmiðlum.

Það er óhætt að segja að nýja félagið hafi slegið í gegn því varningur merktur Beans Lacrosse Club hreinlega rauk út. Fylgjendum á samfélagsmiðlum fjölgaði gríðarlega og allt í einu vildu allir eignast muni merktum Beans Lacrosse Club.

Deildin bætti metið yfir mestu sölu á varningi á einum degi um meira en 30 prósent. það var hreinlega allt brjálað að gera á sölusíðu deildarinnar á netinu.

Alls seldust vörur merktar Beans liðinu fyrir 50 þúsund Bandaríkjadali á einum sólarhring en það eru meira en sjö milljónir í íslenskum krónum. Varningurinn er enn að seljast sjö dögum síðar en þó ekki af sama krafti og 1. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×