Óskar Örn Hauksson, fyrirliða Íslandsmeistara KR, vantar aðeins tólf leiki til að verða leikjahæstur í sögu efstu deildar á Íslandi.
Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.
Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 30 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.
Í dag ætlum við að skoða stóran áfanga sem Óskar Örn Hauksson getur náð í sumar.
Óskar er næstleikjahæstur í sögu efstu deildar með 309 leiki. Metið á Birkir Kristinsson en hann lék 321 leik fyrir ÍBV, Fram, KA og ÍA á sínum tíma.
Óskar getur jafnað leikjamet Birkis þegar KR tekur á móti FH í 12. umferð Pepsi Max-deildarinnar. Leikurinn á að fara fram 16. ágúst.
Hann getur svo slegið met Birkis og orðið leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar karla þegar KR fær Val í heimsókn í 13. umferð þremur dögum eftir leikinn gegn FH.
Auk þess að vera næstleikjahæstur í sögu efstu deildar er Óskar sá fjórtándi markahæstur með 75 mörk.
Óskar er leikja- og markahæsti leikmaður KR í efstu deild en hann sló bæði þau met síðasta sumar. KR varð þá Íslandsmeistari og Óskar valinn besti leikmaður deildarinnar, 35 ára gamall.
Óskar hefur leikið 257 leiki fyrir KR í efstu deild og skorað 63 mörk. Áður en hann kom í KR hafði hann leikið 52 leiki fyrir Grindavík í efstu deild og skorað tólf mörk.
Aðeins þrír leikmenn hafa leikið 300 leiki eða meira í efstu deild á Íslandi; Birkir, Óskar og Gunnleifur Gunnleifsson. Sá síðastnefndi hefur leikið 304 leiki í efstu deild. Hann gæti bætt leikjametið í sumar en það verður að teljast ólíklegt þar sem hann orðinn varamarkvörður Breiðabliks.
Leikjahæstir í efstu deild karla á Íslandi
Flestir leikir
- Birkir Kristinsson - 321
- Óskar Örn Hauksson - 309
- Gunnleifur Gunnleifsson - 304
- Gunnar Oddsson - 294
- Atli Guðnason - 274
- Kristján Finnbogason - 268
- Sigurður Björgvinsson - 267
- Atli Viðar Björnsson - 264
- Guðmundur Steinarsson - 255
- Heimir Guðjónsson - 254