Laugardagar eru tileinkaðir ungu kynslóðinni í streymi Borgarleikhússins. Fyrst var sagan um Gosa lesin og síðan Stígvélaði kötturinn.
Í dag klukkan tólf á hádegi bregður Katla Margrét Þorgeirsdóttir sér í hlutverk refsins úr Gosa og les ævintýrið um Greppikló.
Sagan af Greppikló hefur notið vinsælda út um allan heim. Höfundar eru þau Axel Scheffler og Julia Donaldson en þýðingin er eftir Þórarinn Eldjárn.
Framundan í Borgó í beinni
Á sunnudaginn klukkan 20 verður boðið upp á upptöku frá verðlaunasýningunni Jesú Litli. Sýningin var frumsýnd 20. nóvember 2009 og tekin upp fimm leikár í röð vegna vinsælda. Einnig verður streymt frá spjalli við Halldóru Geirharðsdóttur, Kristjönu Stefánsdóttur og Berg Þór Ingólfsson, leikara sýningarinnar.
Hægt er að nálgast útsendingarnar úr Borgarleikhúsinu hér á Vísi en einnig á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísir á kerfum Vodafone og Símans.