Innlent

Var ráðin til starfa á öðrum leik­skóla á meðan lög­reglu­rann­sókn stóð yfir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Skjáskot/Stöð 2

Kona, sem hlaut nýverið dóm fyrir tvö ofbeldisbrot gegn fimm ára dreng er hún starfaði sem þroskaþjálfi, var send í þriggja mánaða veikindaleyfi eftir seinna brotið árið 2018. Svo var gerður starfslokasamningur við hana en á meðan málið var til rannsóknar hjá lögreglu sótti hún um starf á leikskóla í Reykjavík. Þar hefur hún starfað frá því í ágúst síðastliðnum.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir borgina ekki hafa vitað af málinu fyrr en um hádegi í dag þegar málið fór í fjölmiðla.

„Ég vil taka það fram að við hörmum þetta mál og öll málsatvik. […] Þetta mál kom hvergi fram í ráðningarferlinu, ekki í samtölum og ekki þegar við sóttum upplýsingar í sakaskrá. Þegar að við fáum að vita af málinu nú fyrir hádegi kom það okkur í raun og veru alveg í opna skjöldu,“ segir Helgi.

Þroskaþjálfinn var dæmdur fyrir að hafa veist að barninu í tvígang; fyrst í október 2017 með því að hafa gripið um báðar hendur drengsins og krosslagt þær harkalega, og svo í febrúar 2018 með því að hafa slegið hann með flötum lófa í andlitið.

Elín Ingibjörg Kristófersdóttir móðir drengsins lýsti því í ítarlegu viðtali við Stöð 2 að hún hafi ekki verið látin vita af fyrra atvikinu fyrr en seinna atvikið kom upp.

Helgi ítrekar að beðið hafi verið um upplýsingar í sakaskrá en á næstunni muni vera farið vel yfir öll málsatvik og hvernig ráðningarferlið fór fram.

Leikskólastjórinn á leikskólanum þar sem konan starfar nú ræddi við konuna í dag þegar málið kom upp. Hún hefur verið sett í tímabundið leyfi.

„Hún er frá störfum þangað til er búið að fara í gegnum málið og síðan þá hvernig Reykjavíkurborg mun bregðast við. Það tekur eðlilega tíma, við þurfum að fara ofan í saumana á þessu. Það barn sem viðkomandi starfsmaður hefur unnið með, við erum búin að upplýsa foreldra þess barns. Þannig að við erum að reyna að halda vel utan um málið og tryggja eðlilega málsmeðferð,“ segir Helgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×