Arnar Davíð Jónsson er fyrsti keilumaðurinn sem er á meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins.
Listinn yfir þau tíu sem fengu flest atkvæði í kjörinu á íþróttamanni ársins 2019 var birtur í dag. Úrslitin úr kjörinu verða kunngjörð 28. desember.
Fjögur eru á meðal tíu efstu í fyrsta sinn; kylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson, fótboltakonan Glódís Perla Viggósdóttir, sundmaðurinn Anton Sveinn McKee og áðurnefndur Arnar Davíð.
Eins og áður sagði er hann fyrsti keilumaðurinn sem kemst á topp tíu listann síðan Samtök íþróttafréttamanna byrjuðu að velja íþróttamann ársins 1956.
Arnar Davíð náði frábærum árangri á árinu. Hann sigraði á Evrópumótaröðinni 2019, fyrstur Íslendinga. Honum var einnig boðið að taka þátt í úrslitum heimstúrsins þar sem hann fékk silfur.
Gylfi Þór Sigurðsson er á meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins í níunda sinn. Sara Björk Gunnarsdóttir, sem var valin íþróttamaður ársins 2018, er í áttunda sinn á meðal tíu efstu og Aron Pálmarsson í sjöunda sinn.
Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar (1)
Arnar Davíð Jónsson, keilari úr Keilufélagi Reykjavíkur (1)
Aron Pálmarsson, handboltamaður hjá Barcelona á Spáni (7)
Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrnukona hjá Rosengård í Svíþjóð (1)
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, frjálsíþróttakona úr ÍR (2)
Guðmundur Ágúst Kristjánsson, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur (1)
Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Everton á Englandi (9)
Júlían J.K. Jóhannsson, kraftlyftingamaður úr Ármanni (3)
Martin Hermannsson, körfuboltamaður hjá Alba Berlín í Þýskalandi (3)
Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona hjá Wolfsburg í Þýskalandi (8)