Innlent

Eldur kom upp í rafmagnskassa í Vestmannaeyjum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikill blossi kom upp við skammhlaupið og var kassinn illa farinn eftir á.
Mikill blossi kom upp við skammhlaupið og var kassinn illa farinn eftir á. Slökkvilið Vestmannaeyja/Skjáskot

Eldur kom upp vegna skammhlaups í rafmagnskassa á Búastaðabraut í Vestmannaeyjum á fimmta tímanum í dag. Slökkvilið vaktaði kassann uns starfsmenn HS-veitna komu á vettvang og rufu strauminn að kassanum.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu Slökkviliðs Vestmannaeyja. Þar eru einnig birtar myndir af kassanum eftir að tókst að ráða niðurlögum eldsins, en minniháttar eldur var innan í kassanum eftir að straumur hafði verið rofinn. Sá eldur var slökktur með dufttæki.





„Það er full ástæða að minna fólk á að fara gríðarlega varlega þegar svona lagað á sér stað og halda sig í öruggri fjarlægð, snerta ekki kassann og reyna ekki að slökkva fyrr en örugglega er búið að rjúfa strauminn að kassanum,“ segir í færslunni.

Þá er bent á að þegar uppákomur sem þessar eiga sér stað geti mikill straumur enn verið á kössum sem loga, jafnvel þótt rafmagn sé farið af í nærliggjandi húsum.

Myndband af eldinum er að finna í hlekk neðst í færslu slökkviliðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×