Minnst 14 eru látin eftir skotárás í kirkju í þorpinu Hantoukoura í austurhluta Búrkína Fasó í dag.
Í yfirlýsingu frá stjórnvöldum á svæðinu kemur fram að fjöldi manna sé særður eftir árásina.
Ekki liggur fyrir hverjir standa að árásinni. Eins er ástæða hennar óljós. Hundruð manna hafa fallið í svipuðum árásum í landinu á síðustu árum. Flestar þeirra hafa verið framdar af öfgatrúuðum hryðjuverkasamtökum. Árásirnar hafa valdið mikilli spennu milli ólíkra þjóðfélags- og trúarhópa, sérstaklega við landamæri Búrkína Fasó við Malí.
Í frétt breska ríkisútvarpsins af málinu er vitnað í heimildamann AFP-fréttastofunnar, sem segir að vopnaðir menn hafi komið inn í kirkjuna og byrjað að skjóta. Þeir hafi meðal annars skotið prest og börn sem í kirkjunni voru.
Haft er eftir öðrum heimildamanni að mennirnir hafi flúið vettvang á vespum.
Mannskæðar árásir öfgafullra íslamista hafa gerst æ tíðari í Búrkína Fasó síðan 2015, en ein afleiðing þess er að loka hefur þurft þúsundum skóla.
Mannskæð skotárás í kirkju í Búrkína Fasó
Vésteinn Örn Pétursson skrifar
