Innlent

Ofbeldi og hótanir í október

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglumenn að störfum.
Lögreglumenn að störfum. vísir/vilhelm
Í október voru skráð níu tilvik þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi.Það sem af er ári hafa verið skráð um 34 prósent fleiri slík tilvik en skráð voru að meðaltali síðustu þrjú ár á undan. 

Þá voru skráð sex tilvik í október þar sem lögreglumanni var hótað ofbeldi. Slíkum tilvikum hefur einnig fjölgað. Það sem af er ári hafa verið skráð um 20 prósent fleiri tilvik en árin þrjú á undan.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í afbrotatölfræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir nýliðinn októbermánuð. Alls voru skráð 852 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í október og fækkaði þessum brotum nokkuð á milli mánaða.

Þá fjölgaði skráðum innbrotum á milli mánaða en þar af var mesta fjölgunin á skráðum innbrotum í fyrirtæki og stofnanir. Þá hefur skráðum innbrotum í ökutæki fækkað um rúm 25 prósent á milli mánaða.

Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði á milli mánaða. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna fjölgað töluvert á milli mánaða, sem og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.

Skráðum ofbeldisbrotum fækkaði töluvert á milli mánaða og á fækkunin við um bæði minniháttar og meiriháttar líkamsárásir. Það sem af er ári hafa borist um sex prósent færri tilkynningar um ofbeldisbrot en bárust að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×