Um helgina kepptu 13 Íslendingar á Norðurlandamótinu í karate í Danmörku og unnu samtals þrjú silfur og tvö brons, öll í kata.
Þórður Jökull Henrysson náði bestum árangri íslensku keppendanna. Hann vann báða undanriðla sína með yfirburðum og keppti til úrslita í flokki 16-17 ára pilta í kata.
Í úrslitum mætti Þórður Teo Lappalainen frá Finnlandi. Þórður hlaut þar einkunnina 22,08 fyrir öfluga framkvæmd á kata Anan Dai en Finninn fékk 22,14 í einkunn. Hann vann því Þórð með aðeins 0,06 stiga mun sem er minnsti mögulegi munur á heildareinkunnum.
Í 16-17 ára stúlknaflokki í kata varð Freyja Stígsdóttir langhæst í sínum undanriðli, rúmlega einum heilum á undan öðrum keppendum. Í úrslitum mætti hún Josephine Christiansen, ríkjandi Norðurlanda- og Danmerkurmeistara, og tapaði með 0,36 stiga mun.
Hugi Halldórsson vann silfur í kata í flokki 14-15 ára pilta. Hann vann undanriðli sinn örugglega og mætti Svíþjóðarmeistaranum William Tran í úrslitum. Tran vann með talsverðum yfirburðum, rúmlega einum heilum í einkunn.
Tómas Pálmar Tómasson keppti í sama flokki og Hugi. Hann tapaði fyrir Tran í undanriðli en vann svo bronsverðlaun.
Í flokki 14-15 ára stúlkna í kata varð Eydís Magnea Friðriksdóttir önnur í sínum undanriðli og vann bronsviðureign sína örugglega.
Aron Anh Ky Huynh var hársbreidd frá bronsverðlaunum í karlaflokki. Í annarri umferð gerði hann sér lítið fyrir og skákaði ríkjandi Norðurlandameistara, Svíanum Alexander Pagot. Aron varð annar í riðlinum á eftir Dananum August Andersen og tryggði sér viðureign um bronsið gegn Dovydas Zymantas frá Litháen. Aftur skildu aðeins 0,06 stig á milli keppenda og sá litháíski fékk bronsið.
Í kumite náðu Máni Karl Guðmundsson, Hugi Halldórsson og Iveta Ivanova bestum árangri íslensku keppendanna. Þau kepptu öll um bronsverðlaun í sínum flokkum en töpuðu fyrir sterkum mótherjum.
Hársbreidd frá því að verða Norðurlandameistari
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið




„Ég trúi þessu varla“
Sport

United hættir að bjóða upp á frían hádegismat
Enski boltinn


Carragher kallaði Ferdinand trúð
Enski boltinn


