Írakskir mótmælendur kveiktu í íranskri ræðismannsskrifstofu í dag en sex mótmælendur voru myrtir af öryggissveitum sem skutu mótmælendur á færi. Spennan hefur aukist verulega undanfarin misseri í landinu. Frá þessu er greint á vef fréttastofu AP.
Mótmælendurnir báru eld að byggingu ræðismannsskrifstofunnar í helgu borginni Najaf í kvöld. Einn mótmælandi lést þar og minnst 35 særðust þegar lögreglan skaut á mótmælendur til að koma í veg fyrir að þeir kæmust inn í bygginguna.
Mótmælendurnir fjarlægðu íranska fánann sem hékk utan á byggingunni og drógu írakska fánann að húni. Írönsku starfsliði ræðismannsskrifstofunnar varð ekki meint af og náðu þau að flýja bygginguna í gegnum bakdyr. Síðar um kvöldið settu yfirvöld í Najaf útivistarbann.
Þetta atvik markar stigmögnun í mótmælunum sem hafa geisað í Bagdad og suðurhluta landsins frá því 1. október síðastliðinn. Mótmælendur ásaka ríkisstjórnina um að vera spillta og hafa kvartað yfir lélegri almannaþjónustu og miklu atvinnuleysi. Þeir hafa einnig lýst yfir óánægju vegna aukinna áhrifa Íran á íröksk innanríkismál.

