Innlent

Rannsaka hvort kveikt hafi verið í íbúðinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Íbúðin var alelda þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang.
Íbúðin var alelda þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang. Mynd/Aðsend
Eldurinn sem olli altjóni á íbúð í Reykjanesbæ aðfaranótt sunnudags virðist hafa kviknað í stofu íbúðarinnar. Lögregla rannsakar nú m.a. hvort um íkveikju hafi verið að ræða.

Slökkviliðsmenn fengu tilkynningu um mikinn eld í íbúð í fjölbýlishúsi að Framnesvegi í Reykjanesbæ á fimmta tímanum aðfaranótt sunnudags. Sex íbúðir eru í húsinu og voru þær allar rýmdar. Vettvangur var afhentur lögreglu strax um morguninn.

Sjá einnig: Íbúð alelda í Reykjanesbæ

Eiríkur Valberg rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir í samtali við Vísi að rannsókn á eldsupptökum miði vel. Þá hafi verið rætt við vitni en Eiríkur getur þó ekki tjáð sig um það hvort yfirheyrslur hafi farið fram í tengslum við málið. Svo virðist sem eldurinn hafi kviknað í stofu íbúðarinnar.

Er grunur um íkveikju?

„Það er bara eitthvað sem er til skoðunar, til rannsóknar núna. Við erum ekki komin á þann stað að við getum tjáð okkur um það.“

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hafði eftir heimildum sínum í gær að íbúar hússins hefðu ítrekað kvartað til félagsmálayfirvalda undan leigjanda íbúðarinnar þar sem eldurinn kviknaði. Eiríkur kveðst ekkert geta tjáð sig um meintar kvartanir.

Íbúðin var alelda þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang aðfaranótt sunnudags. Enginn var í íbúðinni þegar að var komið. Fólk í öðrum íbúðum var gert að yfirgefa heimili sín á meðan á slökkvistarfi stóð en enginn var fluttur á slysadeild. Mikill hiti var í íbúðinni þar sem eldurinn logaði og sprungu rúður að sögn slökkviliðs


Tengdar fréttir

Íbúð alelda í Reykjanesbæ

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra eru sex íbúir í húsinu og voru þær allar rýmdar. Um mikinn eld var að ræða. Lögreglan á Suðurnesjum hefur málið til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×